Skattur á fyrirtæki

Bókin Skattur á fyrirtæki (885 bls.) skiptist í þrjá megin þætti. Fjallar fyrsti þáttur um hugtakið atvinnurekstur og hvaða tekjur tilheyra honum þar með talið á hvaða ári atvinnurekanda telst hafa hlotnast þær. Í öðrum þætti ræðir svo um frádrátt frá þessum tekjum, og skiptir þar auðvitað mestu máli hinn almenni rekstrarkostnaður, þar á meðal afmörkun hans gagnvart útgjöldum, sem ekki má draga frá tekjum, eins og einkakostnaði og fjármunakostnaði. Bókinni lýkur svo á ítarlegri greinargerð um skattlagningu einstakra fyrirtækjaforma, svo sem hlutafélaga, sameignarfélaga og einstaklingsfyrirtækja við stofnun rekstrar og rekstrarlok svo og skattfrjálsa umbreytingu þeirra úr einu rekstrarformi í annað.

Skattur á fyrirtæki er fyrst og fremst hugsuð sem kennslubók fyrir þá sem hafa lokið grunnnámi í skattarétti í háskólum landsins. Bókin getur þó einnig nýst sem handbók eða uppflettirit fyrir þá sem þurfa á upplýsingum að halda um skattamál sín. Þeir sem starfa við framtalsgerð, svo sem endurskoðendur og viðurkenndir bókarar munu þó vafalaust hafa hvað mest not af bókinni. Helgast það af skiptingu hennar í meginmál og tilvísunargreinar þar sem finna má fjölda dóma og úrskurða skattyfirvalda, sem sérstaklega eru valdir til að auðvelda mönnum að finna lausn á vandamálum sínum. Bókin Skattur á fyrirtæki fæst í Bóksölu stúdenta og kostar 15.000 kr. Einnig er unnt að panta hana á netfanginu agv@skattvis.is