Skattar og sport

Samkvæmt reglugerð um frádrátt frá tekjum í atvinnurekstri og sjálfstæðri starfsemi er m.a. heimilt að gjaldfæra í rekstri fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu og almenna heilsubótaraðstöðu.

Með orðasambandinu almenn heilsubótaraðstaða halda ýmsir, að átt sé við kaup á þjónustu einkaþjálfara, almennan aðgangseyri að líkamsræktarstöðvum, leigu á íþróttasal o. fl., en svo er ekki. Hafi atvinnurekandi gjaldfært slíkan kostnað í atvinnurekstri sínum myndi skattstjóri því fella hann niður við endurskoðun á skattskilum hans.

Þetta gildir þó ekki, hafi kostnaðurinn verið talinn til tekna hjá hlutaðeigandi starfsmanni sem laun eða hlunnindi. Jafnframt ber að hafa í huga, að hafi atvinnurekandi greitt fyrir íþróttaþjálfun starfsmanna í tengslum við íþróttakeppni fyrirtækja (firmakeppni), kann hann þó að mega draga kostnaðinn frá tekjum, enda þótt hann hafi ekki verið talinn fram til tekna hjá starfsmönnunum sem laun. Helgast það af því, að þá þykir kostnaðurinn hafa auglýsingablæ.
Einmitt af þeim ástæðum myndi atvinnurekanda vera heimilt að draga frá tekjum kaup á íþróttafatnaði sem ber nafn hans og starfsmenn nota við það tækifæri.
Um skatta og sport, þar á meðal niðurstöður skattyfirvalda í ýmsum  ágreiningsmálum er varða frádráttarbærni slíks kostnaðar, má finna ítarlegar upplýsingar í bókinni Skattur á fyrirtæki.