EES-samningurinn og íslenskur skattaréttur

Bókin EES-samningurinn og íslenskur skattaréttur (385 bls.) skiptist í tíu meginkafla. Geymir sá fyrsti inngang þar sem grein er gerð fyrir efni bókarinnar. Þau ákvæði EES-samningsins, sem fjalla um skatta og gjöld, jafn fátækleg og þau nú eru, eru svo tekin til umfjöllunar í öðrum kafla. Í þriðja kafla ræðir um réttaráhrif EES-samningsins samkvæmt innlendum rétti. Hvort samningurinn hafi bein áhrif eða njóti jafnvel forgangsréttar gagnvart innlendum rétti er semsé helsta álitaefnið. Fjórði kafli inniheldur greinargerð um þau ákvæði samningsins sem banna aðildarríkjunum að mismuna ríkisborgurum annarra aðildarríkja og hindra að innlendir aðilar geti fært sér í nyt fararfrelsi sitt. Í fimmta kafla er gerð grein fyrir dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og EFTA-dómstólsins í veigamiklum skattamálum. Er þeirri umfjöllun svo haldið áfram í sjötta og sjöunda kafla með greinargerð um einstök mál. Áttundi kafli inniheldur umfjöllun um það hvort fjórfrelsið sé skilyrðislaust eða hvort heimilt sé að veita undanþágu frá því. Í framhaldinu er svo spurt hvort undanþágan þurfi að vera lögbundin eða hvort heimilt sé að byggja hana á öðrum sjónarmiðum. Níundi kafli er um það hvort íslenska tekjuskattskerfið samræmist EES samningnum og ef svo er ekki, hverju þurfi þá að breyta. Í því sambandi er greint á milli einstaklinga og fyrirtækja svo og ótakmarkað og takmarkað skattskyldra aðila. Tíundi kafli hefur að geyma stutta samantekt. Í honum er efnið semsé dregið saman og reynt að komast að niðurstöðu um það sem betur má fara við skattlagningu og framkvæmd. Bókin EES-samningurinn og íslenskur skattaréttur kostar 10.000 kr. og má panta hana á netfanginu agv@skattvis.is